Hvað er forstig mergæxlis (MGUS)?
Forstig mergæxlis (MGUS) er góðkynja, einkennalaust og upprunnið í plasmafrumum. Forstig mergæxlis var fyrst skilgreint af Robert A. Kyle við Mayo spítalann í Bandaríkjunum út frá tilvist einstofna mótefna í blóði án einkenna eða merkja um mergæxli. Forstig mergæxlis er ekki krabbamein en því fylgir aukin áhætta á því að þróa með sér mergæxli (u.þ.b. 1% á ári að jafnaði).
Góðkynja: Gefur til kynna að ákveðið ástand sé ekki illkynja, þ.e. dreifist ekki í aðra líkamshluta og hefur ekki ífarandi vöxt í nærliggjandi vefi og líffæri. MGUS er dæmi um góðkynja ástand.
Plasmafrumur: Sérstakar frumur ónæmiskerfisins sem við eðlilegar aðstæður mynda mótefni. Mótefnin nýtast í baráttu ónæmiskerfisins við sýkingar og krabbamein. Ef plasmafrumur verða illkynja verða þær mergæxlisfrumur. Þá mynda þær gölluð mótefni sem eru einstofna. Þau kallast M-prótín og mælingar á þeim eru notaðar til greiningar á mergæxli og forstigum þess.
Einstofna mótefni: Mótefni sem eru eins að byggingu og virkni. Einstofna mótefni sem búin eru til á tilraunastofu eru stundum notuð sem lyf.
Hvað eru plasma frumur?
Plasmafrumur eru frumur ónæmiskerfisins sem þroskast úr B-eitilfrumum og hafa það hlutverk að mynda mótefni. Mótefni eru stórar prótínsameindir sem bindast frumum, bakteríum, veirum o.fl. sem ónæmiskerfið hefur túlkað sem framandi. Mótefnið þekkir eitthvað tiltekið efni, t.d. á yfirborði bakteríu og með því að bindast því beinir mótefnið sjónum ónæmiskerfisins að viðkomandi efni og því sem tengt er við það, í þessu tilfelli að bakteríunni. Þetta efni kallast ónæmisvaki.
Hluti af eðlilegu ónæmissvari er þroskun B-frumna í plasmafrumur sem ferðast svo í beinmerginn þar sem þær halda sig. Þar mynda þær mótefni sem einnig eru þekkt sem ónæmisglóbúlín (e. immunoglobulin, Ig). Bygging mótefna samanstendur af tveimur þungum keðjum og tveimur léttum keðjum (sjá mynd 1). Léttu keðjurnar eru annað hvort af gerðinni kappa (κ) eða lambda (λ) en þungu keðjurnar geta verið af fimm mismunandi gerðum, G, A, D, E og M. Mótefni eru flokkuð eftir gerð þungu keðjunnar, t.d. hafa mótefni af gerðinni IgG (e. immunoglobulin G) þungu keðjuna G. Hvert mótefni inniheldur aðeins eina gerð af þungri og eina gerð af léttri keðju.
B-frumur/B-eitilfrumur: Ákveðin gerð hvítra blóðkorna sem þroskast í plasmafrumur í beinmergnum. Þessar frumur framleiða mótefni.
Mótefni: Plasmafrumur framleiða prótín sem nefnast mótefni og hafa það hlutverk að verjast sýkingum og öðrum meinsemdum í líkamanum. Hvert mótefni hefur ákveðinn ónæmisvaka (s.s. bakteríu, veiru, eiturefni eða krabbameinsfrumu) sem það binst, annaðhvort til að eyðileggja hann eða í þeim tilgangi að “merkja” ónæmisvakann þannig að aðrar frumur ónæmiskerfisins þekki skaðvaldana og geti eytt þeim úr líkamanum.
Ónæmisvaki: Þegar óvelkomna gesti á borð við bakteríur, veirur, eiturefni eða krabbameinsfrumur er að finna í líkamanum vaknar ónæmiskerfið og framleiðir náttúruleg mótefni til þess að hamla uppgangi þeirra í líkamanum. Hvaða efni, fruma eða lífvera sem vekur þetta ónæmissvar kallast ónæmisvaki. Sjá nánar við útskýringuna á mótefni.
Ónæmisglóbulín (e. immunoglobulin, Ig): Annað heiti yfir mótefni sem mynduð eru af B-frumum og plasmafrumum ónæmiskerfisins. Þau festast á utanaðkomandi sameindir og stýra eyðingu ónæmiskerfisins á þeim. Gerðir ónæmisglóbúlína eru IgG, IgA, IgD, IgE og IgM.
Hvað eru einstofna mótefni?
Í forstigi mergæxlis verður til hópur plasmafrumna í beinmergnum sem eru klónar af hvor annarri. Þetta gerist vegna afbrigðilegrar fjölgunar fruma sem eru upprunar í einni og sömu frumunni. Þessar frumur framleiða allar sama mótefni sem beinist gegn sama ónæmisvaka og kallast þá einstofna (af einum stofni) mótefni. Þessi mótefni eru oftast afbrigðileg og virka ekki sem hluti ónæmiskerfisins. Þau koma hins vegar í stað eðlilegra mótefna og geta þannig veikt varnir líkamans.
Hvernig er forstig mergæxlis greint?
Forstig mergæxlis greinist oftast þegar verið er að leita að öðrum sjúkdómum. Þá er gerð rannsókn sem kallast rafdráttur á annað hvort sermi eða þvagi. Ef einstofna mótefni finnast við rafdrátt er gerður sérstakur rafdráttur með ónæmislitun. Í þeirri rannsókn er hægt að skoða af hvaða gerð viðkomandi mótefni eru (IgG, IgM o.s.frv.).
Rafdráttur: Rannsókn þar sem rafkraftar eru notaðir til að draga sermi eða þvag í gegnum gel. Við það raða prótín í þessum vökvum sér upp í stærðarröð. Rafdráttur er notaður til að greina magn mergæxlis-prótína (M-prótína) í sermi og þvagi og af hvaða stærð þessi M-prótín eru. Rafdráttur er því notaður bæði til greiningar og eftirfylgdar á mergæxlum.
Sermi: Blóðvökvi sem verður eftir þegar frumurnar í sýninu hafa myndað blóðsega og verið fjarlægðar úr sýninu.
Eru til fleiri en ein gerð af forstigi mergæxlis?
Forstig mergæxlis (MGUS)er oftast upprunnið í plasmafrumum en í u.þ.b. 15% tilfella er uppruni MGUS í sérstökum eitilfrumum sem eru líkar plasmafrumum. Þessar frumur framleiða mótefni af gerðinni IgM og í stað þess að þróast í mergæxli leiðir þessi gerð MGUS til risaglóbúlíndreyra Waldenströms (e. Waldenström’s macroglobulinaemia) en það er ákveðin gerð eitilfrumukrabbameins. Hér eru þó einblínt á forstig mergæxlis sem upprunnið er í plasmafrumum og getur þróast yfir í mergæxli eða tengda sjúkdóma eins og mýlildi (e. amyloidosis).
Risaglóbúlíndreyri Waldenströms
(e. Waldenström’s macroglobulinemia): Sjaldgæf gerð eitlakrabbameins sem myndar einstofna mótefni af gerðinni IgM. Þetta fyrirbæri er ekki mergæxli.
Mýlildi (e. amyloidosis): Sjúkdómur sem einkennist af því að léttar keðjur ónæmisglóbúlína, oftast af gerðinni lambda, falla út í vefjum líkamans. Í sjúklingum með mýlildi safnast þessar keðjur fyrir í ákveðnum líffærum, s.s. hjarta, taugum og nýrum í stað þess að vera losuð út um nýru.
Hversu algengt er forstig mergæxlis?
U.þ.b. 4% einstaklinga yfir 50 ára aldri eru með forstig mergæxlis en nýgengi hækkar með aldri. Mjög margir með forstig mergæxlis vita aldrei af því.
Nýgengi: Fjöldi þeirra sem greinast með tiltekinn sjúkdóm á hverju ári.
Hver eru greiningarskilmerki forstigs mergæxlis (MGUS)?
Til að greinast með forstig mergæxlis þarf að uppfylla alla eftirfarandi þætti:
- Einstofna mótefni finnast í blóði en mælast undir 30 g/l
- Einstofna plasmafrumur í beinmerg undir 10%
- Engin merki um líffæraskemmdir tengdar mergæxli
Hverjar eru líkurnar á því að forstig mergæxlis (MGUS) þróist yfir í mergæxli?
Í þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á horfum einstaklinga með forstig mergæxlis hefur verið sýnt að aðeins 1% þeirra þróa með sér mergæxli á hverju ári.
Árið 2010 var gefin út sérstök áhættuflokkun einstaklinga með MGUS sem telur þrjú skilmerki:
- Einstofna mótefni undir 15 g/l
- Einstofna mótefni af gerðinni IgG
- Eðlilegt hlutfall frjálsra léttra keðja í blóði
Þeir sem uppfylla öll þessi skilmerki teljast vera með lág-áhættu forstig mergæxlis en áhætta eykst með hverjum liðnum sem viðkomandi uppfyllir ekki. Þannig eru einstaklingar með há-áhættu forstig mergæxlis (MGUS) með einstofna mótefni yfir 15 g/l og af annarri gerð en IgG og með óeðlilegt hlutfall frjálsra léttra keðja í blóði.
Í dag eru sterkar vísbendingar um að nánast öll mergæxli hafi byrjað sem forstig mergæxlis. Hvað það er sem breytir forstiginu í mergæxli er hins vegar ekki þekkt.
Er til meðferð við forstigi mergæxlis?
Það er er ekki mælt með því að meðhöndla sjúklinga með forstig mergæxlis sem stendur. Stundum getur forstig mergæxlis gengið tilbaka ef viðkomandi er með undirliggjandi sýkingu sem er meðhöndluð, en það er hins vegar sjaldgæft.
Í dag eru einstaklingar með forstig mergæxlis eingöngu meðhöndlaðir í klínískum rannsóknum. Rannsóknir hafa til dæmis verið gerðar á gagnsemi náttúruefna eins og omega-3 fitusýra, græns tes og kúrkúma auk lyfja eins og bisfósfónata, bólgueyðandi lyfja o.fl. Engin þessara meðferða hefur dregið úr áhættu á því að forstig mergæxlis verði að mergæxli.
Bisfosfonöt: Í daglegu tali nefnd beinþynningarlyf. Þessi lyf hamla beinniðurbroti með því að bindast við yfirborð beins og kemur þannig í veg fyrir niðurbrot þess.
Mögulegir fylgikvillar MGUS
Úttaugamein
Þrátt fyrir að forstig mergæxlis sé skilgreint sem einkennalaust geta komið fram fylgikvillar eins og til dæmis úttaugamein, en það verður vegna áhrifa einstofna mótefnanna á taugafrumur í útlimum. U.þ.b. 10% einstaklinga með forstig mergæxlis fá úttaugamein. Það einkennist af dofa, kitli og jafnvel brunatilfinningu undir iljum eða í lófum. Allar gerðir forstigs mergæxlis geta valdið úttaugameini, en algengi þess er meira meðal þeirra sem hafa forstig mergæxlis af IgM-gerð. Ef einkenna verður vart þarf að láta vita svo að hægt sé að meta hvort einkennin séu vegna forstigs mergæxlis eða af annarri orsök, til dæmis vegna sykursýki. Þetta er mikilvægt svo unnt sé að hefja viðeigandi meðferð. Sjúklingurinn gæti þurft að hitta taugalækni til að fá mat á einkennunum og mögulegri meðferð.
Beinþynning og beinbrot
Þeir sem greinast með forstig mergæxlis eru líklegri til að hljóta beinbrot. Þetta er þó líklega ekki vegna aukinnar áhættu á beinþynningu. Beinþynning getur þó verið samverkandi þáttur í brotahættu og þess vegna er mikilvægt að vera meðvitaður um þessa áhættu og láta lækna vita af greiningu svo hægt sé að fylgjast með beinþéttni og veita viðeigandi meðferð.
Sýkingar
Einstaklingar með forstig mergæxlis eru rúmlega tvisvar sinnum líklegri til að fá bakteríu- eða veirusýkingar. Einstofna mótefnin koma í stað eðlilegra mótefna og þannig veikjast varnir líkamans gegn sýkingum. Áhættan er sérstaklega aukin hjá þeim sem hafa einstofna mótefni yfir 25 g/l en hún er þó einnig aukin hjá þeim sem hafa lægri gildi. Mikilvægt er að vara sig á sýkingum með reglulegum handþvotti, bólusetningum og með því að fara varlega í umgengni við fólk með smitandi sjúkdóma. Rétt er þó að minnast á að nýlegar rannsóknir frá Íslandi hafa sýnt að einstaklingar með forstig mergæxlis hafi ekki aukna hættu á alvarlegum sýkingum af völdum verirunnar SARS-CoV-2 sem verður COVID-19.
Að lokum
Greining krabbameins eða forstiga þess er alltaf áfall og margir upplifa að þeir missi stjórnina á eigin lífi. Hins vegar er hægt að auðvelda ferlið með upplýsingaöflun og virkri þátttöku í ákvörðunum um eftirlit og meðferð við sjúkdómnum.
Þessum upplýsingum er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir ráðleggingar og fræðslu frá heilbrigðisstarfsfólki sem þekkir sjúklinginn og er best til þess fallið að svara spurningum um hvert einstakt tilvik. Tilgangurinn er hins vegar að veita leiðbeinandi upplýsingar um þessa gerð sjúkdóma.
Mikilvægt er að hver einstaklingur taki virkan þátt í að stuðla að eigin heilsu.
Á vef myeloma.org er hægt að nálgast nýjustu upplýsingar um sjúkdóminn og
forstig hans. Einnig má hafa samband við Perluvini, félag um mergæxli á Íslandi eða upplýsingamiðstöð International Myeloma Fund (IMF) InfoLine@myeloma.org ef frekari spurningar vakna varðandi mergæxli eða forstig þess.