Skip to content
Search
Close this search box.

Rannsóknin

Rannsóknin er á vegum Háskóla Íslands, Krabbameinsfélags Íslands og Landspítala og heitir „Blóðskimun til bjargar/Þjóðarátak gegn mergæxlum“. 

Tilgangur hennar er að rannsaka áhrif skimunar á afdrif einstaklinga með góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. MGUS) sem er einkennalaust forstig mergæxlis.

Læknir tekur blóðprufu

Framkvæmd rannsóknarinnar

Öllum einstaklingum búsettum á Íslandi, fæddum 1975 og fyrr, var boðin þátttaka.

Yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda mun ekki greinast með forstig mergæxlis og verða þeir þátttakendur ekki kallaðir inn til mats eða frekari rannsókna. Litlum hluta þessa hóps verður þó mögulega af handahófi boðið að gefa blóðsýni til frekari samanburðar við þá sem greinast með forstigið.

Um 4-5% þátttakenda greinast með forstig mergæxlis og var af handahófi skipt í þrjá hópa til þess að sjá hvort skimun eins og gerð er í þessari rannsókn gæti lækkað tíðni mergæxla og jafnvel útrýmt sjúkdómnum með því að grípa fyrr inn í sjúkdómsferlið.

Ef forstig mergæxlis þróast yfir í mergæxli eru gerðar viðeigandi ráðstafanir.

Er hvorki kallaður til viðtals né fylgt eftir með blóðprufu. Í lok rannsóknarinnar verður haft samband við alla í hópi 1 og þeim greint frá niðurstöðu skimunarinnar og ráðlagt viðeigandi eftirlit, sem byggir á niðurstöðu þessarar rannsóknar. Hópur 1 er dulkóðaður þannig að hvorki þátttakendur né rannsakendur hafa upplýsingar um hverjir eru í hópnum.

Er kallaður til viðtals og upplýsingagjafar. Farið verður yfir fyrra heilsufar, framkvæmd líkamsskoðun og tekið blóð- og þvagsýni.

Blóðsýni eru meðal annars tekin til að meta blóðhag, nýrnastarfsemi, hjartastarfsemi, bólgu og ákveðin prótein og breytingar í erfðaefni.

Hluta þessa hóps er boðið í myndgreiningu og beinmergsrannsókn við fyrstu komu, til að staðfesta greiningu. Að auki er beinmergssýni tekið eftir því sem læknisfræðilegar ástæður gefa tilefni til.

Er kallaður til viðtals og upplýsingagjafar. Farið er yfir fyrra heilsufar, framkvæmd líkamsskoðun og tekið blóð- og þvagsýni.

Blóðsýni tekin meðal annars til að meta blóðhag, nýrnastarfsemi, hjartastarfsemi, bólgu og ákveðin prótein og breytingar í erfðaefni.

Öllum er boðin tölvusneiðmynd og beinmergsrannsókn við fyrstu komu, til að staðfesta greiningu og mögulegar beinbreytingar og aftur við lok rannsóknar. Að auki er beinmergssýni tekið eftir því sem læknisfræðilegar ástæður gefa tilefni til.

Hvernig er hægt að skima fyrir mergæxlum og forstigi þess?

Mergæxli er krabbamein sem upprunnið er í plasmafrumum í beinmerg. Undir eðlilegum kringumstæðum framleiða þessar frumur svokölluð mótefni sem leika lykilhlutverk í vörnum líkamans gegn sýkingum. Þegar plasmafrumur verða mergæxlisfrumur fara þær að framleiða svokölluð einstofna mótefni en þau er hægt að finna og mæla í blóði einstaklinga með mergæxli eða forstig þess. Þannig er hægt skima fyrir því með blóðprufu.

Fyrsta vísindagreinin birt

Í maí 2021 var fyrsta vísindagreinin úr rannsókninni birt í Blood Cancer Journal.

Þróun verkefnisins

2016
Nóvember 2016
Blóðskimun til bjargar hefst

Blóðskimun til bjargar býður öllum fæddum 1975 eða fyrr að taka þátt í einni viðamestu vísindarannsókn sem ráðist hefur verið í á Íslandi.

Desember 2016
50 þúsund Íslendingar skráðir til þátttöku

Meira en 50 þúsund Íslendingar skráðu sig til þátttöku á fyrsta mánuði rannsóknarinnar.

2017
Mars 2017
CNN sýnir frá rannsókninni

CNN með hinn virta Dr. Sanjay Gupta í broddi fylkingar til landsins að fjalla um Blóðskimun til bjargar.

Desember 2017
Skráningu lýkur

Skráningu í rannsóknina lýkur en skráðir voru alls 80.759 sem jafngildir 54% þátttökuhlutfalli, sem er einstakur árangur á heimsvísu.

Apríl 2017
Blóðskimunarsetrið opnar
Óttarr Proppé klippir borðann

Blóðskimunarsetrið í Skógarhlíð opnar og fyrsti þátttakandinn hefur eftirlit í skimunarhluta rannsóknarinnar.

2018
Mars 2018
Kynningarátak rannsóknarinnar hlýtur verðlaun
Áran verðlaun ÍMARK fyrir árangursríkustu herferð ársins

Kynningarátak vegna rannsóknarinnar Blóðskimun til bjargar hlýtur hin eftirsóttu verðlaun ÍMARK, Áruna.

Júní 2018
Sigurður Yngvi hlýtur alþjóðleg verðlaun
Sigurður Yngvi verðlaunaður

Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor og ábyrgðarmaður rannsóknarinnar hlýtur alþjóðleg verðlaun fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði mergæxla.

2019
Ágúst 2019
Fyrstu þátttakendur hefja lyfjarannsókn

Fyrstu þátttakendur teknir inn í lyfjarannsókn Blóðskimunar.

2020
Desember 2020
Blóðsýnasöfnun lýkur
Blóðsýni

Blóðsýnasöfnunarfasa rannsóknarinnar lýkur en þá höfðu 75.422 blóðsýni borist.

2021
Maí 2021
Fyrsta vísindagreinin birt

Í þessari fyrstu grein rannsóknarinnar sem birt var í Blood Cancer Journal var aðferðarfræði rannsóknarinnar lýst í smáatriðum og skráning í hana tekin saman. Með þessu var rannsóknin kynnt fyrir vísindaheiminum og sýnt fram á að þátttaka er góð og að rannsóknin muni geta náð markmiðum sínum.

 

Ágúst 2021
Fyrstu þátttakendur ljúka lyfjarannsókn

Fyrstu þátttakendur í lyfjarannsókn ljúka meðferð.

Desember 2021
Blóðskimun til bjargar á alþjóðlegri læknaráðstefnu ASH 2021
Blóðskimun til bjargar rannsóknarhópurinn

Blóðskimun til bjargar með fjóra fyrirlestra og tvö veggspjöld á ASH 2021, alþjóðlegri læknarráðstefnu í Atlanta í Bandaríkjunum.

Desember 2021
Vísindagrein birt í Blood Cancer Journal

Forstig mergæxlis hefur verið tengt skertu ónæmissvari og sýkingum í fyrri rannsóknum og kenningar hafa verið uppi um að forstig mergæxlis gæti haft áhrif á smithættu og horfur í COVID-19. Þessi rannsókn er sú stærsta og ítarlegasta um þetta efni og sýndi að forstig mergæxlis hefur ekki áhrif á smithættu eða horfur í COVID-19. Niðurstöðurnar eru óvæntar og endurspegla það hvernig niðurstöður úr Blóðskimunn til Bjargar geta breytt sýn okkar á sjúkdómnum. Greinin var birt í Blood Cancer Journal.

Desember 2021
Vísindagrein birt í Scandinavian Journal of Public Health

Mikið af rannsóknum sem verða framkvæmdar innan Blóðskimunar til bjargar byggja á gögnum um króníska sjúkdóma greindir í íslensku heilbrigðiskerfi. Í þessari grein voru gæði þessara gagna könnuð. Nákvæmni var aðeins mismunandi milli sjúkdóma en heildarnákvæmið reyndist 98,5% sem er mjög hátt. Greinin var birt í Scandinavian Journal of Public Health.

Febrúar 2022
Vísindagrein birt í Journal of Internal Medicine

Gögnin sem safnað er í Blóðskimun til bjargar geta nýst til að svara spurningum sem tengjast COVID-19 faraldrinum á Íslandi. Hér notuðum við gögn um andlega líðan Íslendinga á meðan á fyrstu bylgju COVID á Íslandi stóð og sáum að áhrif á andlega líðan voru almennt jákvæð. Þessar niðurstöður eru mikilvægar því gögn Blóðskimunar gefa tækifæri til þess að skoða andlega líðan samfellt, og spyrja ekki sérstaklega um COVID tengda líðan, heldur almenna líðan. Greinin var birt í Journal of Internal Medicine.

September 2022
Ný viðmiðunargildi í mælingum tengdum greiningu á forstigi mergæxlis
Gögn úr rannsókninni hafa verið nýtt til að endurskilgreina forstig mergæxlis. Greint er frá þessu í vísindagrein sem birtist í einu virtasta tímariti heims á sviði blóðsjúkdóma, Blood Cancer Journal.