Í frétt Morgunblaðsins 20. desember 2021 kemur fram að um 5% þátttakenda 40 ára og eldri í rannsókninni „Blóðskimun til bjargar“ greindust með forstig mergæxlis. Niðurstöðurnar voru m.a. birtar á stórri árlegri læknaráðstefnu í Atlanta í Bandaríkjunum í desember síðastliðnum og vöktu mikla athygli. Í óformlegri skoðanakönnun hlaut rannsóknarverkefnið flest atkvæði helstu sérfræðinga í mergæxli í heiminum, sem áhugaverðasta framlagið.
Fyrir fimm árum hóf Sigurður Yngvi Kristinsson vinnu við að svara rannsóknarspurningunni hvort það sé ávinningur að því að skima fyrir forstigi mergæxlis. Rúmlega 80 þúsund einstaklingar tóku þátt og vakti þessi mikla þátttaka athygli á læknaráðstefnunni í Atlanta og er að sögn Sigurðar Yngva lykilatriði í rannsókninni. „Íslendingar eru mjög opnir og til í að taka þátt í vísindarannsóknum, við erum upplýst þjóð.“