Andri Steinþór Björnsson og Inga Wessman rannsaka áhrif skimunar og greiningar á forstigi mergæxlis á andlega heilsu 80 þúsund Íslendinga.
Um allan heim er skimað fyrir krabbameinum og í sumum tilfellum forstigum krabbameina, eins og gert er í rannsókninni Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum sem Sigurður Yngvi Kristinsson læknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands stýrir. Að sögn þeirra Andra Steinþórs Björnssonar prófessors og Ingu Wessman doktorsnema, sem bæði eru meðal rannsakenda í rannsóknarhópnum sem stendur að Blóðskimun til bjargar, er þó lítið vitað um það hvaða áhrif slík skimun hefur á andlega heilsu og lífsgæði. Sérstaklega sé lítið vitað um langtímaáhrif, þ.e. áhrif sem gætir til lengri tíma en nokkurra mánaða eftir þátttöku í skimun.