Skip to content
Search
Close this search box.

Blóðskimun til bjargar breytir skilgreiningu á forstigi mergæxlis

Háskóli Íslands 29/12/2022

Gögn úr rannsókninni hafa verið nýtt til að endurskilgreina forstig mergæxlis. Sagt er frá þessu í einu virtasta tímariti heims á sviði blóðsjúkdóma, Blood Cancer Journal sem er hluti af útgáfu Nature-samstæðunnar. Vísindamenn Blóðskimunar hafa breytt viðmiðunarbili fyrir mælingu á svokölluðum fríum léttum keðjum í blóði hjá einstaklingum með langvinnan nýrnasjúkdóm en mælingin gegnir lykilhlutverki við greiningu og eftirlit með mergæxli, forstigum þess og fleiri tengdum sjúkdómum.

Höfundar vísindagreinarinnar eru meðal annarra læknarnir Þórir Einarsson Long og Sigurður Yngvi Kristinsson, sem einnig starfa við rannsóknina, en stór hópur fólks kemur að framkvæmd hennar. Þórir og Sigurður Yngvi segja niðurstöðurnar mikilvægar þar sem nýrnastarfsemi hafi áhrif á niðurstöður umræddra mælinga. Því hafi einstaklingar með skerta nýrnastarfsemi verið ranglega greindir hingað til og það hafi leitt til bæði ofgreininga og óþarfa viðbótarrannsókna fyrir þennan hóp.

Með nýjum viðmiðunarbilum fyrir áðurnefndar keðjur í blóði, sem eru sérsniðin að einstaklingum með skerta nýrnastarfsemi, verður túlkun og þýðing niðurstaðnanna mun skýrari. Þetta mun fækka óþarfa rannsóknum, minnka áhyggjur sjúklinga og spara fjármuni í heilbrigðiskerfinu. Niðurstöðurnar hafa nú þegar vakið mikla athygli víða erlendis og munu hafa mikil áhrif á greiningu og meðferð sjúklinga með mergæxli og tengda kvilla um allan heim.

„Við höfum fengið mikil og sterk viðbrögð við greininni þar sem læknar víða um heim hafa lýst yfir ánægju með hana og segjast nú þegar farnir að nota nýju viðmiðunargildin í daglegu klínisku starfi. Því er greinilegt að þessi vinna hefur og mun hafa áhrif á meðhöndlun sjúklinga víðs vegar um heim,“ segir Þórir Long.

„Það er ánægjulegt að sjá eitt af meginmarkmiðum rannsóknarinnar Blóðskimunar til bjargar verða að veruleika, en það er einmitt að bæta og auka skilning okkar á forstigi mergæxlis og auka lífsgæði,“ segir Sigurður Yngvi Kristinsson.

Greinina í Blood Cancer Journal má nálgast hér.

 

Deila

Meira

CNN sýnir frá rannsókninni

International Myeloma Foundation – 01/03/2017 CNN kom til landsins með hinn virta Dr. Sanjay Gupta í broddi fylkingar til þess að fjalla um Blóðskimun til